top of page

Nafn félagsins, heimili og tilgangur

1. grein

Félagið heitir Samfylkingarfélagið í Reykjavík (SffR).  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið er staðbundin grunneining stjórnmálaflokksins Samfylkingarinnar. SffR fylgi stefnulýsingu Samfylkingarinnar frá stofnfundi flokksins 5.–6. maí árið 2000.

2. grein

Tilgangur SffR er að beita sér í höfuðborginni fyrir jafnaðarstefnunni, málstað Samfylkingarinnar, og vera umræðu- og samstarfsvettvangur félagsmanna SffR. Félagið skal einnig vera vettvangur félagsmanna og kjörinna fulltrúa Samfylkingarinnar í Reykjavík, bæði á Alþingi og í borgarstjórn, til samræðu og samráðs. Stjórn SffR starfar því sem borgarmálaráð sbr. gr. 3.14 í lögum Samfylkingarinnar.  Félagið vinnur í þágu félagsmanna sinna með málefnastarfi, fræðslu fyrir félagsmenn um jafnaðarstefnuna og þjálfun í pólitísku starfi.

 

3. grein

Jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi er órjúfanlegur hluti jafnaðarstefnunnar. Tryggt skal við kosningar í stjórn, ráð og nefndir að hlutfall kvenna sé ekki lægra en 40% og að þar sem og að í þriggja manna hópi séu fulltrúar af fleiri en einu kyni. Sama gildir um kynjahlutfall meðal varamanna. Skulu hlutföll í stjórn og varastjórn í heild vera sem jöfnust.

  

Réttindi og skyldur félagsmanna

 

4. grein 

Allir íbúar Reykjavíkur sem eru eldri en 16 ára og eru jafnaðarmenn, greiða árgjald, og eiga ekki aðild að öðrum stjórnmálaflokki en Samfylkingunni geta verið félagsmenn í SffR.

Stjórn félagsins samþykkir gjaldflokka árgjalds svo sem vegna aldurs og sérstakra aðstæðna og skal sú samþykkt liggja frammi.

Félagsmaður getur verið félagsmaður í öðru aðildarfélagi Samfylkingarinnar. Félagsmaður hefur eitt atkvæði við kjör á landsfund og til fulltrúaráðsins í Reykjavík, og skal hann fyrir upphaf kjörfundar tilkynna stjórn í hvaða félagi hann hyggst greiða atkvæði. Kosningaréttur og kjörgengi miðast við félagaskrána eins og hún er 1 mánuði fyrir kosningar. Ekki er hægt að greiða atkvæði í umboði annars.

Þeir félagsmenn sem eru 60 ára og eldri eru jafnframt skráðir í 60+ í Reykjavík. Þeir félagar sem eru 35 ára og yngri eru jafnframt skráðir í Hallveigu. Félagið heldur skrá yfir óvirka félaga sem ekki hafa greitt tvö árgjöld eða fleiri. Óvirkir félagar njóta ekki réttinda skv. 2., 4. og 6. tölulið 5. greinar.

 

5. grein 

Réttindi félagsmanna eru:

1. að taka þátt í fræðslustarfi á vegum félagsins og flokksins,

2. að greiða atkvæði á félagsfundum, við val fulltrúa á landsfund, til fulltrúaráðsins í Reykjavík og í almennri atkvæðagreiðslu í flokknum,

3. að bera upp tillögur á félagsfundi,

4. að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa innan félagsins og flokksins,

5. að taka þátt í stefnumótun félagsins og flokksins,

6. að taka þátt í kosningum um val flokksins á framboðslista.

Skyldur félagsmanna eru:

1. að samþykkja grunnhugmyndir flokksins eins og þær koma fram í stefnu flokksins og lögum, sbr. 2. grein,

2. að greiða árgjald,

3. að vera reiðubúnir til þátttöku í starfi félagsins og flokksins, einkum á álagstímum, svo sem í aðdraganda kosninga,

4. að sýna ábyrgð í starfi innan flokksins og á vegum hans.

 

Stjórn félagsins

 

6. grein

Í stjórn félagsins starfa 7 aðalmenn og 5 varamenn. Í stjórn sitja auk formanns varaformaður, ritari, gjaldkeri og 3 meðstjórnendur. Einn stjórnarmanna skal vera ábyrgur fyrir fræðslumálum. Formaður getur starfað lengst í þrjú ár í senn. Varamenn eru kjörnir í einu lagi, og telst sá fyrsti varamaður sem flest atkvæði hlýtur eða er efstur á lista séu varamenn kjörnir einróma, og svo koll af kolli. Stjórnarfund skal boða með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara nema allir stjórnarmenn samþykki styttri frest. Varamenn eiga jafnan rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti. Stjórnarfundur telst löglegur hafi verið löglega til hans boðað og minnst 4 stjórnarmenn séu mættir. Einfaldur meirihluti ræður komi til atkvæðagreiðslu á stjórnarfundum. Stjórnarsamþykkt þarf til allra fjárhagslegra skuldbindinga. Forseti Hallveigar skal eiga seturétt á stjórnarfundunum SffR með málfrelsi og tillögurétt.

Aðalfundur, félagsfundir og opnir fundir

 

7. grein

Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar ár hvert. Aðalfund SffR skal boða með þriggja vikna fyrirvara en senda skal út dagskrá með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað. Við kosningar og kjörgengi í félaginu skal miða við rétta félagaskrá eins og hún var 31. desember. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Fastir dagskrárliðir aðalfundar eru:

 

1) skýrsla stjórnar,

2) ársreikningur,

3) skýrsla skoðunarnefndar,

4) lagabreytingar,

5) ákvörðun um árgjald,

6) kjör formanns,

7) kjör gjaldkera,

8) kjör annarra stjórnarmanna,

9) kjör varamanna,

10) kjör þriggja manna í skoðunarnefnd,

11) kjör í nefndir,

   a) í uppstillingarnefnd,

   b) í aðrar nefndir sem aðalfundur ákveður,

12) önnur mál.

 

 

8. grein

Tillögur til lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn 2 vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Lagabreytingartillögur skulu sendar út með öðrum fundargögnum minnst viku fyrir fund.

Tillaga að lagabreytingum telst samþykkt fái hún 2/3 hluta greiddra atkvæða. 

 

9. grein

Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna uppstillingarnefnd og einn til vara að tillögu fráfarandi stjórnar félagsins.

Hlutverk nefndarinnar er að leggja fyrir aðalfund tillögur um frambjóðendur við kjör formanns, annarra stjórnarmanna, varamanna og skoðunarnefndarmanna.

Tillögur uppstillingarnefndar skulu liggja fyrir á skrifstofu félagsins minnst viku fyrir aðalfund.

Aðrar tillögur skulu berast skrifstofu félagsins minnst 2 sólarhringum fyrir boðaðan aðalfund. 

 

  

10. grein

Fundi skal boða með bréfi eða tölvupósti eða með auglýsingu í fjölmiðlum. Aðalfund skal boða með auglýsingu og/eða með bréfi/tölvupósti til allra félaga.

Félagsfundi skal boða með dagskrá með a.m.k. fimm daga fyrirvara. Félagsfundur er ályktunarbær um hvaða efni sem vera skal.

Opna umræðufundi skal boða með a.m.k. tveggja daga fyrirvara. Þá skal boða með dagskrá.

Ekki skulu þar teknar fyrir ályktunartillögur um annað en dagskrárefni.

Stjórninni er skylt að boða til félagsfundar ef minnst 30 félagsmenn óska þess skriflega og tilgreina fundarefni.

 

Hverfisfélög

   

11. grein

Heimilt er að innan félagsins geti starfað hverfisfélög, eitt í hverju borgarhverfi. Hverfisfélag beiti sér í málefnum síns hverfis og tekur þátt þátt í kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrir alþingis og borgarstjórnarkosningar.

Hverfisfélag haldi aðalfund árlega fyrir lok mars og skal á dagskrá hans vera a.m.k. skýrsla stjórnar, starfsáætlun næsta starfsárs og kjör nýrrar stjórnar.

Hverfisfélag geti ekki skuldbindið sig fjárhagslega án samþykkis stjórnar SffR.

Formenn hverfisfélaga hafa seturétt á stjórnarfundum SffR með málfrelsi og tillögurétt.

 

Félag 60+ í Reykjavík

12. grein

Innan Samfylkingarfélagsins í Reykjavík starfar deild 60+ í Reykjavík. Deildin nýtur stuðnings SffR og er fjárhagur hennar hluti af fjárhag félagsins. Formaður 60+ í Reykjavík hefur seturétt á fundum stjórnar SffR. Deildin gerir grein fyrir starfsemi sinni á aðalfundi SffR og skilar ársskýrlsu sinni til stjórnar SffR

 

Skoðunarnefnd

13. grein

Skoðunarnefnd,sbr. 6. grein, gefur aðalfundi skýrslu um álit sitt á starfi stjórnarinnar, fjárreiðum félagsins og ársreikningi næstliðins starfsárs.

Í skoðunarnefnd sitja þrír félagsmenn. Þeir velja sér formann sem hefur rétt til að sitja stjórnarfundi og hefur aðgang að öllum gögnum félagsins.

Félagsmenn geta vísað til nefndarinnar málum sem varða störf félagsins.

Önnur ákvæði

 

14. grein

Samfylkingarfélaginu verður því aðeins slitið að tillaga þess efnis berist stjórn félagsins frá minnst 30 félagsmönnum. Slíka tillögu skal taka til afgreiðslu á tveimur löglega boðuðum félagsfundum í félaginu og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á hvorum fundi um sig til þess að tillagan teljist samþykkt. Ekki skal líða lengri tími milli funda en sex vikur. Sé félagið lagt niður renna eignir þess til Samfylkingarinnar.

 

 

Samþykkt á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík 25. febrúar 2021.

bottom of page